
Vindakortið sýnir varasama staði á vegum landsins
Nú er sumarið runnið í garð og ferðalög landans að hefjast af fullum krafti. Nú liggja margir daglangt yfir veðurspánni, ekki síst þeir sem ferðast með hjólhýsi, fellihýsi, í húsbíl eða með stærri aftanívagna, svo sem hestakerrur. Veðrið, og þá sérstaklega vindstyrkur, skiptir miklu máli þegar ferðast er með aftanívagn eða í húsbíl.
Til að auka öryggi í umferðinni hefur Sjóvá látið hanna sérstakt vindakort sem opnast í Google Map. Á forsíðu Sjóvár er áberandi hnappur til að nálgast kortið, sem sýnir þekkta staði á landinu, þar sem ferðalangar mega eiga von á varasömum strengjum, sem reynst geta afdrifaríkir fyrir aftanívagna og létta húsbíla.
„Kortið var þróað í samvinnu við veðurfræðing, atvinnubílstjóra og ýmsa viðskiptavini Sjóvár. Vindakortið er þannig uppbyggt að búið er að merkja þekkta vindasama og vindhviðustaði inn á Íslandskortið. Kortið tekur sjálfkrafa á móti nýjustu upplýsingum frá sjálfvirkum veðurstöðvum og færir inn á kortið. Það er gott að vinna með kortið, það er auðvelt stækka og minnka það og sjá nákvæma staðsetningu og lýsingu á staðháttum og við hverju sé hægt að búast á viðkomandi stað. Við vonum að kortið nýtist ferðalöngum og atvinnubílstjórum allt árið um kring,“ segir Einar Guðmundsson, sérfræðingur í forvörnum hjá Sjóvá.
Óvæntar vindhviður mikill áhættuþáttur
Ferðavagnar taka á sig mikinn vind og þegar um er að ræða hliðarvind er sérstakrar varúðar þörf. „Reynslan hefur sýnt að vindhviður geta orðið tvöfalt til þrefalt sterkari en sá meðalvindur sem gefinn er upp í spám. Þegar greindar eru ástæður tjóna á ferðavögnum sést að vindur, sérstaklega óvæntar vindhviður, reynast mikill áhættuþáttur. Afleiðingar slíkra tjóna eru oft alvarlegar, hjólhýsi velta, heilu hliðarnar fara úr húsbílum og aftanívagnar fjúka útaf,“ segir Einar.
Aksturseiginleikar húsbíla eru talsvert öðruvísi en venjulegra bíla. Húsbílar eru samsettir úr léttum efnum og meginþorri þeirra er ekki framleiddur fyrir utanvegaakstur eða akstur á ósléttu undirlagi. Holóttir íslenskir vegir geta því með tíð og tíma dregið úr styrkleika slíkra bíla. Veður jafnt sem önnur akstursskilyrði skipta því miklu máli.
„Við hvetjum alla sem ferðast í húsbílum og með aftanívagna að kynna sér Vindakortið á heimasíðu Sjóvár. Það er fyrst og fremst ætlað til þess að auka öryggi í umferðinni og auðvelda ferðamönnum að haga ferðalaginu í samræmi við veðrið. Á heimasíðunni eru einnig að finna upplýsingar um hvernig ökumaður eigi að bregðast við skyndilegum vindkviðum, en rétt og yfirveguð viðbrögð geta oft afstýrt alvarlegum slysum og eignatjónum. Leiðbeiningarnar á heimasíðu Sjóvár eru gott veganesti í þeim efnum,“ segir Einar ennfremur.